Gleðilegt sumar?

logiÞað er sannarlega vor í lofti og börnin í bænum hafa átt viðburðaríka páskahelgi. Ýmist rennt sér á brettum og skíðum í fjallinu eða stundað aðra afþreyingu sem bærinn hefur upp á að bjóða. Sum minnast ferðar með fjölskyldunni í sumarbústað eða til afa og ömmu útá land. Þau eru eru önnum kafin við að dytta að reiðhjólunum sínum; þvo þau og pumpa í dekkin áður en brunað er af stað út í sumarið. Á kvöldin láta þau sig dreyma um ævintýrin handan hornsins; fótboltamót í Vestmannaeyjum, landsmót skáta að Hömrum eða aðra spennandi hluti. Á meðan sitja foreldrarnir frammi í eldhúsi og velta því fyrir sér hvort verja eigi sumarleyfinu utanlands, á ferð um landið eða bara í rólegheitum á sólpallinum, þar sem grillað er upp á hvern dag og skotist í pottinn á kvöldin.
Eða hvað?
Í nýrri skýrslu Barnaheilla kemur fram að fátækum börnum fjölgaði mikið í kjölfar efnhagsþrenginganna í Evrópu á árunum 2008 til 2012. Æ fleiri börn eru við það að lenda utangátta í því samfélagi sem þau búa í. Talið er að jafnvel 16% barna á Íslandi eigi það á hættu að búa við fátækt: Það eru 10.000 íslensk börn og 500 á Akureyri. Alltof mörg börn hér í bænum eiga því ekki kost á að lifa því lífi sem lýst er í upphafi greinarinnar eða taka þátt í leik og starfi sem flestum okkar þykir sjálfsagt. Efnaminni börn eiga það á hættu að einangrast félagslega og verða útundan. Séu þau fátæk í æsku eru þau mun líklegri til þess að verða það fullorðin.
Í kjölfar hrunsins var gripið til mikil aðhalds á flestum vígstöðvum. Margt var nauðsynlegt, annað skiljanlegt en niðurskurðurinn var þó hugsaður til skamms tíma. Í skólum voru vistunargjöld hækkuð, forfallakennsla spöruð,efniskaup til kennslu minnkuð og fjármunir sem ætlaðir voru til skemmtunar eða uppbrots á skólastarfi allir skornir við trog. Vísitölutenging styrkja bæjarins til íþrótta- og tómstundarstarfs barna var fryst og framboð til tómstunda skert. Allt bitnaði þetta harðast á þeim sem síst skyldi; börnum frá heimilum sem hafa lítið milli handanna.
Margir brugðust við á aðdáunarverðan hátt. Íþrótta- og tómstundafélög hafa mörg sýnt mikla samfélagslega ábyrgð og reynt að tryggja að bág fjárhagsstaða bitni sem minnst á efnalitlum börnum. Fjölmörg dæmi eru um kennara sem taka með sér efni að heiman til að nota við kennslu, jafnvel föt eða nesti handa börnum sem greinilega eiga erfitt. Slík fórnfýsi er góð en það er ekki æskilegt að börn eigi allt of mikið undir slíkum góðvilja til langframa. Þá er heldur ekki hægt að leggja það á kennara að starfa við slíkar aðstæður. Þó ástandið sé líklega verra sums staðar í Evrópu kemur m.a. fram í nýlegri grein í Independent að betur stæð ríki þurfi
að hafa verulegar áhyggjur af þessari þróun. http://goo.gl/N3Uy6y.

Öll börn eiga sinn rétt

Öll börn eiga rétt á því að fá að þroska og nýta hæfileika sína. Það eykur ekki einungis hamingju þeirra heldur skilar samfélaginu auknum gæðum. Nú þegar vorar í afkomu bæjarins er afar mikilvægt að bætt staða verði fyrst nýtt til þess að skila til baka þeim sparnaði sem gripið var til í skólum, barna- og unglingastarfi. Jafnframt því þarf að huga að aðgerðum sem jafna stöðu barna.

Tímasett aðgerðaáætlun

Samfylkingin vill setja fram tímasetta aðgerðaáætlun sem miðar að því að vinna gegn fátækt á Akureyri. Þar verði strax gripið til ráðstafana til hjálpar börnum í efnalitlum fjölskyldum. Meðal þess sem við viljum gera er að:

  • Fara í nákvæma endurskoðun fjárhagsáætlunar með það að markmiði að jafna stöðu barna í bænum.
  • Farið verði ítarlega í saumana á því hvort rétt er gefið við úthlutun gæða.
  • Úthluta öllum börnum persónulegum umboðsmanni, að danskri fyrirmynd, sem aðstoði þau og veiti utanumhald frá því að skólaganga hefst, til 18 ára aldurs.
  • Auka ráðstöfunarfé skóla til að skapa fjölbreytni og tilbreytingu í skólastarfi og bæta aðstöðu star
    fsfólks til að takast á við verkefni sín.
  • Hækka frístundaávísanir og endurskoða aðkomu bæjarins að stuðningi við börn og unglinga í íþrótta- og tómstundarstarfi.
  • Tryggja að öll börn geti nýtt sér hollar og góðar skólamáltíðir.

Markmiðið er að tryggja öllum börnum fullnægjandi hlutdeild í þeim miklu gæðum sem bærinn býr yfir. Ég heiti því að Samfylkingin mun setja þessi mál í forgang á næsta kjörtímabili.
Gleðilegt sumar!Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Kynntu þér stefnumálin okkar
Stjórnmál skipta þig máli
Atvinnumálin
Eflum öldrunarþjónustuna