Stjórnmál skipta þig máli

bjarkiHinn 31. maí næstkomandi verða sveitarstjórnarkosningar. Ég hvet alla, bæði Akureyringa og aðra landsmenn til þess kynna sér kosningamálin, hvað flokkarnir standa fyrir og kynnast fólkinu sem er í framboði. Ég tók þá ákvörðun fyrir nokkru síðan að hella mér út í stjórnmál enda hafa þau lengi verið mér hugleikin.

Í dag virðist vera „kúl“ og „inni“ að hafa sem minnstan áhuga á stjórnmálum. Fólk nennir hreinlega ekki kynna sér stjórnmál og taka virkan þátt í þeim og lætur 2-3% landsmanna eða svokallaða aðgerðasinna alveg um það. Íslenskar kosningarannsóknir sína að rúmlega 40% fólks segist ekki geta nefnt einn sveitarstjórnarmann í sínu eigin sveitarfélagi!

Á sama tíma er álit fólks og virðing á stjórnmálaflokkum, stjórnmálamönnum, opinberum stofnunum og „kerfinu” í algjöru lágmarki. Örstutt „gúglrannsókn“ mín um minn uppáhaldsstjórnmálamann leiddi í ljós að sá hagaði sér eins og hálfviti, væri mesti kjáni sem þjóðin hefur alið af sér, hann sé auk þess umrenningur, fífl, Arabasleikja, lygari að atvinnu, kvartviti, óviti og auðvitað opinber hálfviti. Það munar ekki um fyrirmyndina!

Af hverju sækist ég eftir því að verða umrenningur og opinber hálfviti? Svarið er einfalt: Til þess að koma mínum hugmyndum á framfæri.

Ég er jafnaðarmaður og ég trúi því að jafnaðarmennska sé réttlátasta stjórnmálastefna í heimi. Hún er ekki gallalaus, síður en svo. Hún hefur það þó umfram aðrar stjórnmálastefnur að ganga út frá því að jafna kjör almennings og veita öllum, óháð stöðu og stétt jöfn tækifæri auk þess að verðlauna athafnasemi og hvetja til hnattrænnar hugsunar.

Hugmyndafræði jafnaðarmennskunar hefur átt undir högg að sækja í þjóðmálaumræðunni enda stillir hún sér óspart upp gegn peningaöflum og sérhagsmunum. Hún gengur ekki erinda neinna annarra en almennings, þeirra sem hallað er á í samfélaginu og þeirra sem enga málsvara hafa. Fólk eru okkar hagsmunir og þess vegna er ég jafnaðarmaður.

Almenningur kallar eftir gegnsæju og réttlátu kerfi, sem bæði skattleggur sanngjarnt og tryggir öflugt velferðarkerfi. Ég þekki það vel af eigin raun að sjá hvernig skattfé okkar nýtist til þess að bjarga mannslífum og öðrum sem þurfa á hjálp að halda. Löngu er kominn tími til að leggja þjóðarskútunni og byggja upp þjóðarheimilið.

Bjarki Ármann Oddsson

Höfundur er körfuboltaþjálfari, stjórnsýslufræðingur og 3. maður á lista Samfylkingarinnar – jafnaðarmannaflokks Íslands á Akureyri.Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Frá úrræðaleysi til aðgerða
Settu bara á þig gloss – og brostu
Mikilvægi grunnskólans
Stefnumót við frambjóðendur