Raunveruleg mál sem skipta þig máli!

sirryUm hvað ætlar þú að kjósa í vor? Hvaða málefni skipta þig máli í daglegu lífi sem Akureyringur? Hvernig tekur þú afstöðu til einstaklinga og stjórnmálaflokka sem þú hefur um að velja í kosningum i vor? Sem kjósandi ertu örugglega að hugsa mál þitt – og ég sem frambjóðandi er að leita leiða til að koma á framfæri því sem ég og minn flokkur stendur fyrir.

Stærsti hluti af rekstri bæjarins fer í að tryggja grunnþjónustu m.a. í leik- og grunnskólum. Þetta eru málaflokkar sem snerta okkar daglega líf og ég sem verðandi bæjarfulltrúi þarf að vinna að með hagsmuni þína að leiðarljósi. Ég vil standa með þeim grunngildum sem fengu mig til að taka þátt í bæjarmálunum og taka áskoruninni með Samfylkingunni hér á Akureyri. Þau grunngildi eru jöfnuður og jöfn tækifæri okkar allra til að njóta þess sem Akureyri hefur upp á að bjóða. Þessi grunngildi eru mitt leiðarljós í því sem ég hef nú gefið mig út í.

Eflum fagmennsku kennara og starfsaðstæður í skólum

Raunverulegu málin sem skipta þig og þína fjölskyldu máli hef ég nokkra reynslu af, sumu meira, öðrum minna. Ég þekki það sem móðir að sjá gleðina hjá börnunum mínum þegar þau hafa komið heim með lítinn hlut sem þau gerðu á leikskólanum, gleðina yfir því að hafa lært að skrifa stafinn minn og ég hef séð öryggið sem þau hafa fundið hjá starfsfólki leikskólans. Ég hef setið fundi með kennurum í grunnskólanum þar sem faglega hefur verið tekið á námi barna minna, félagsþroska þeirra og möguleikum til að vaxa og dafna. Ég hef keyrt ótal ferðirnar á íþróttaæfingar og tekið þátt í sigrum og töpum á mótum og í keppnum. Ég hef séð hvernig kennarar og íþróttaþjálfarar hafa mótað börnin mín – og mig sem foreldri. Það er raunverulegt mál að berjast fyrir því að efla og hlúa að því umhverfi sem börnin okkar eru í á hverjum degi. Starfsfólk í skólum hefur fengið nóg af niðurskurði síðustu ára þannig að það er að þrotum komið í sumum tilfellum. Það er ekki lengur nóg að segja við fagfólk í skólum að það sé að standa sig svo rosalega vel í erfiðum aðstæðum. Við verðum að fara að efla innra starf og gefa börnum okkar tækifæri til að eflast áfram í faglegu og öruggu umhverfi skólanna.

Í starfi mínu sem aðstoðarskólameistari í VMA hef ég öðlast dýrmæta reynslu sem ég vil geta nýtt áfram inn í bæjarmálin. Þótt framhaldsskólinn sé rekinn af ríkinu þá eru þar íbúar Akureyrar sem hafa verið afskiptir í þjónustu bæjarins. Þetta eru nemendur sem eru ekki orðnir 18 ára og eru enn á forræði bæjarins í málum sem lúta að öðru en námi þeirra. Því miður sé ég ekki alltaf gleði í augum nemendenda minna og foreldra þeirra – ég sé úrræðaleysi. Foreldrar þekkja ekki leiðirnar sem hægt er að fara til að hjálpa barninu þeirra eða hafa komið að lokuðum dyrum. Þessu verður að breyta og Akureyrarbær að taka afstöðu með ungu fólki upp að 18 ára aldri. Þess vegna viljum við í Samfylkingunni endurskipuleggja alla þjónustu til ungs fólks og koma á ungmennamiðstöð og/eða umboðsmanni barna. Þessar leiðir eru útskýrðar nánar í stefnuskrá okkar og hægt að sjá á heimasíðu Samfylkingarinnar á Akureyri.

Styrkleikana inn í orðræðuna

Orðræða í stjórnmálum skiptir mjög miklu máli, hvað orð við notum um hlutina og hvernig mál eru sett fram. Þar er líka hlutverk fjölmiðla mikið og finnst mér stundum með ólíkindum hvernig sum mál komast á dagskrá fjölmiðla og stjórnmála. Oft eru þetta alvöru mál en stundum gleymum við okkur öll í umræðu um mál sem skipta okkur ekkert svo miklu máli dags daglega. Skólamál og málefni barna hafa oft verið kölluð mjúku málin. Ég get alveg sagt ykkur það sem hjúkrunarfræðingur, kennari og aðstoðarskólameistari í einum stærsta framhaldsskóla landsins að þetta eru alls ekki nein mjúk mál. Þetta eru erfið mál, þetta eru mál sem nísta mann stundum inn að beini og geta verið afar slítandi og tímafrek. Það eru ekki alltaf tilbúnar áætlanir sem hægt er að fara eftir, enginn slagorð sem virka, engin loforð sem virka – það sem skitpir máli er að sá aðili sem sinnir þér geti sett sig í þín spor og hjálpað þér að efla styrkleika þína. Þessi aðili hvort sem hann er kennari, hjúkrunarfræðingur eða bæjarfulltrúi verður að hafa skilning á þeirri stöðu sem þú ert í og vinnuaðstæður viðkomandi þurfa að vera þannig að hægt sé að vinna með þér. Ég og félagar mínir í Samfylkingunni erum tilbúin til að fara í þessa vegferð og láta raunverulegu málin skipta máli. Velferð bæjarbúa skipta mig máli og ef það er hagsmunagæsla í stjórnmálum þá eru íbúar á Akureyri þeir hagsmunir sem ég mun berjast fyrir.

Sigríður Huld Jónsdóttir, höfundur er aðstoðarskólameistari VMA og skipar 2. sætið á lista Samfylkingarnnar fyrir bæjarstjórnarkosningarnar í vor.Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Akureyri tækifæranna
Stjórnmál skipta þig máli
Eflum öldrunarþjónustuna
Fjölskyldan og heimilin