Íþróttir fyrir alla

eidurVið viljum öll geta stundað hreyfingu og iðkað heilbrigðan lífsstíl við bestu mögulegu aðstæður. Við Akureyringar búum við mjög flott skilyrði til íþróttaiðkunar og innan ÍBA erum við með 22 félög. Þetta er frábært og við Akureyringar eigum að vera stoltir af því úrvali og þeirri miklu íþróttaflóru sem að þrífst í bænum.

Við Samfylkingarmenn viljum stuðla að því að innan þessara félaga geti almenningur stundað íþróttir í meira mæli og við viljum efla enn frekar samstarf Akureyrarbæjar og íþróttafélaganna. Við viljum gera  íþróttafélögunum kleift að bjóða almenningi í auknum mæli aðgang að íþróttamannvirkjunum okkar og gera öllum kleift að finna eitthvað við sitt hæfi.
Það er eins með börnin okkar, við viljum finna leiðir til að draga úr brottfalli á unglingastigi í íþróttum og vinna náið með íþróttafélögunum að því að ná betri árangri á því sviði. Afreks- og keppnisíþróttir eiga vissulega að
vera stórt atriði innan félaganna en við megum ekki gleyma hinum sem vilja stunda sportið án þess að keppa um gull og titla. Við þurfum líka að huga að því hvernig við best getum tryggt að börnin okkar geti valið sér íþróttagreinar óháð því hvar þau eiga heima eða hvort mamma eða pabbi geti komið þeim á réttan stað á tilteknum tíma. Við verðum að breyta strætókerfinu okkar þannig að það taki mið af íþróttamannvirkjum bæjarins. Við þurfum að geta tryggt að ef Nonni litli ætlar að mæta á æfingu á tilteknum stað og tíma geti hann nýtt sér strætókerfið okkar til að hann komist leiðar sinnar á öruggan hátt. Það er frítt í strætó sem er vissulega frábært en kerfið þarf að virka betur og það mál ætlar Samfylkingin að taka föstum tökum.

Of lág upphæð

Hvernig getum við stutt betur við foreldra þeirra barna og unglinga sem að stunda íþróttir á Akureyri? Það kostar mikinn pening að æfa íþróttir og foreldrar eru misjafnlega í stakk búnir til þess að mæta þessum kostnaði. Ef við skoðum hvað Akureyrarbær er að gera í dag þá er hann að afhenda foreldrum barna á aldrinum 6 – 13 ára 10 þúsund króna ávísun sem hægt er að nýta til íþrótta eða tómstundastarfs. Þessi upphæð er allt of lág og er tekin úr umferð allt of snemma á lífsleið krakkanna.

Staðreyndin er sú að þegar börnin okkar eru komin á 14-18 ára aldur þá fyrst fer upphæðin að tikka fyrir alvöru. Það er því glórulaust með öllu að klippa þetta út við 13 ára aldurinn. Ef við berum okkur saman við önnur sveitarfélög þá erum við því miður langt á eftir.Ef Samfylkingin kemst til valda eftir næstu kosningar ætlum við að hækka þennan styrk á kjörtímabilinu upp í 25 þúsund og hækka aldurinn þannig að styrkurinn nái til barnanna þar til þau hafa náð 18 ára aldri. Við ætlum að styðja enn betur við bakið á foreldrum barna sem stunda íþróttir og stuðla að því að börnin haldist lengur í íþróttinni. Við viljum líka koma á samstarfi á milli íþróttafélaganna þannig að systkinaafsláttur flytjist á milli íþróttafélaga. Við viljum að systkinin Nonni litli og Gunna geti valið sér íþróttir við sitt hæfi hvort í sínum enda bæjarins og samt fái foreldrarnir afsláttinn sem þau fá að jafnaði innan sama félags.

Íþróttir undirstaða heilbrigðis

Rekstur íþróttafélaga á Íslandi er erfiður og undanfarin ár hafa félögin þurft að mæta miklum skerðingum fjármagns. Við verðum að sinna þessu gríðarlega áhrifamikla félags- og forvarnarstarfi enn betur. Við verðum að tryggja félögunum nægt fjármagn til að geta sinnt sínu mikilvæga starfi á sem bestan hátt og tryggja að við séum að búa þeim bestu mögulegu skilyrði til að sinna starfinu af fagmennsku. Íþróttir eru undirstaða heilbrigðis
og því megum við ekki gleyma þegar við ákveðum að byggja mannvirki eða leggja vegi þegar fjármagn er af skornum skammti. Við þurfum að ráðstafa fjármagninu í þágu fólksins. Í dag er nóg til af mannvirkjum til
íþróttaiðkunar og nú þurfum við að finna leiðir til að nýting þessara mannvirkja verði sem best og nýtist öllum bæjarbúum á sem bestan hátt.

Ágæti kjósandi, Samfylkingin mun stuðla að velferð fólksins í bænum og stuðla að því að allir fái jöfn tækifæri til að stunda íþróttir og iðka heilbrigðan lífsstíl við bestu mögulegu aðstæður.
Höfundur skipar 5. sæti á lista Samfylkingarinnar á Akureyri.Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Raunveruleg mál sem skipta þig máli!
Allir með strætó
Án alls þessa fólks má Akureyri sín lítils
Íþróttir fyrir alla