Mikilvægi grunnskólans

logiÍ fullkomnum heimi geta öll börn látið drauma sína rætast. Þar lifa foreldrar það að sjá börnin sín vaxa úr grasi, þroskast og verða góðir og nýtir þjóðfélagsþegnar. Umburðarlyndi og víðsýni eru einkunnarorðin og fjölbreytileikinn er lofsunginn. Í slíkri veröld njóta öll störf virðingar, hvort sem þau eru unnin með hug eða hönd. Hvort sem árangur þeirra mælist jafnharðan í afkomutölum eða í samfélagslegum ávinningi árum eða áratugum síðar.
Í þesskonar samfélagi lifum við því miður ekki, en mjökumst þó sem betur fer í rétta átt. Einhæft framleiðslusamfélag, reist á fábreytni hefur vikið fyrir aukinni fjölbreytni. Jafnrétti kynjanna nálgast þó hægt sé og almenn mannréttindi eru meiri en áður. Samkynhneigðir búa saman fyrir opnum tjöldum, geðsjúkir eru fúsari að segja sögu sína og íbúar gömlu Sólborgar hafa fyrir löngu flutt úr afskekkti stórri stofnun og búið sér heimili víðsvegar um bæinn. Bær sem fyrir nokkrum áratugum var býsna lokaður, og hafði orð á sér fyrir að flokka íbúa í heima- og aðkomumenn, er smátt og smátt að slíta barnsskónum og breytast í iðandi borgarsamfélag. Eins konar Bonsai borg, þar sem allt er til alls.
En þrátt fyrir allar þessar framfarir, dynja þó ennþá, allt frá barnæsku, á okkur bein og dulin skilaboð þess efnis að sum störf séu merkilegri en önnur: Eitt borgar sig ekki að læra, annað er dæmigert kvennastarf en það þriðja er vænleg leið til álna.
Enn skortir t.d. gríðarlega mikið á það að verknám njóti sömu virðingar og hefðbundið bóknám. Þetta birtist í mörgu, líka í áherslum grunnskólans. Börn fá ekki næg tækifæri til að spreyta sig á öðrum sviðum en hinum hefðbundnu kjarnagreinum. Því fjölbreyttara sem námið er aukast líkur á að allir finni hvar hæfileikar þeirra liggja og umbunin verður ánægjuleg skólaganga. Vansæll nemandi fyllist auðveldlega vanmáttarkennd, verður óhamingjusamur og argur við skólakerfið. Hann þraukar skólaskylduna og gjarnan fyrsta bekk í framhaldsskóla, en gefst þá upp. Aðrir reyna aldrei við framhaldsnám. Þeir halda þess í stað út í lífið, oft stefnu- eða markmiðslausir, án þess að umheimurinn sé tilbúinn að taka á móti þeim.
Ástæður brottfalls geta að sjálfsögðu einnig verið aðrar: Bágur fjárhagur, slæmar heimilsaðstæður, vímuefnanotkun, hvers kyns fötlun og áfram mætti lengi telja. Það er þó ekki aðalatriðið því að samfélag, sem vill rísa undir nafni, gengst að sjálfsögðu við sínum hluta ábyrgðar á velferð þessara ungmenna.
Hér kemur að mikilvægi grunnskólans. Fjölmargar rannsóknir hafa sýnt fram á það að mögulegt er að spá fyrir um brottfall einstaklings úr framhaldsskóla strax við tíu ára aldur, jafnvel fyrr. Það er með öðrum orðum hægt, með nokkuri vissu, að koma auga á það hvort barn er líklegt til þess að falla milli skips og bryggju skólakerfisins á unglingsárum. Okkur ber því að sjálfsögðu skylda til að leggja enn harðar að okkur við að finna þessi börn og mæta þörfum þeirra og löngunum. Það gerum við m.a. með því að auka fjölbreytni náms á mið- og unglingastigi, t.d. í íþróttum, verk- og listgreinum. Þetta er að sjálfsögðu ekki bara spurning um að auka lífshamingju viðkomandi um alla framtíð heldur skilar einnig efnahagslegum ávinningi fyrir samfélagið.
Vissulega er vilji yfirvalda til þess að halda úti öflugu grunnskólakerfi skýr. Um það vitna t.d. grunnskólalög, ný aðalnámskrá og óteljandi stefnuplögg. En það er til lítils að demba yfir skólana hátimbruðum markmiðum ef ekki fylgja fjármunir og önnur úrræði sem nauðsynleg eru til að hægt sé að framfylgja þeim.
Til þess að bærinn okkar geti haldið áfram að blómstra og atvinnulíf dafni þurfum við ekki einungis að keppa um íbúa við önnur sveitarfélög í landinu, heldur einnig borgir nágrannaþjóðanna. Og við þær keppum við varla í launum næstu misserin. Okkar helsta vopn í þeirri baráttu er að halda í og laða til okkar íbúa sem vilja sameina þægindi smábæjarlífsins og kosti borgarlífsins. Við þurfum því að bjóða upp á fjölbreytta, öfluga skóla, kraftmikið íþróttastarf, fjörugt menningarlíf og ríka afþreyingu. En jafnframt þurfa bæjaryfirvöld á hverjum tíma að spyrja sig gagnrýninna spurninga: Er takmörkuðum gæðum rétt skipt, er einhverjum hópi hyglt á kostnað annars og eru einhverjir sem verða útundan?
Og vegna þess að nútímalegur og kraftmikill bær þarf alls konar fólk, í alls konar störf, er nauðsynlegt að börn alist upp við að bera virðingu fyrir þeim öllum.
Ein besta fjárfesting okkar er því án efa framsækinn grunnskóli, þar sem nemendum er innrætt virðing fyrir hvert öðru. Skóli sem temur þeim víðsýni til þess að fagna fjölbreytileikanum, þó að hann sé stundum framandi og jafnvel á skjön við það sem þau ólust upp við. Með fjölbreyttu námsframboði hampar slíkur skóli styrkleikum nemandans í stað þess að minna hann sífellt á veikleikana.
Efling grunnskólans er því eitt brýnasta og jafnframt ábatasamasta viðfangsefni sveitarfélagsins í náinni framtíð.
Höundur er bæjarfulltrúi og skipar 1. sæti á lista Samfylkingarinnar á Akureyri.Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Um flugvallarumræðuna
Strætó
Sigríði Huld í bæjarstjórn
Allir með strætó