Um flugvallarumræðuna

logiHugsið ykkur mann sem horfir glaðbeittur framan í heiminn og heldur að hann hafi höndlað hinn endalega sannleik. Veltið fyrir ykkur samfélagi sem telur sig hafa dottið niður á svo fullkomið fyrirkomulag að ekki sé hægt að gera betur. Maðurinn er líklegur til þess að ráfa um í eigin fávisku og samfélagið dæmt til þess að staðna og dragast aftur út.

Það sem einkum skilur manninn frá öðrum dýrategundum er gríðarleg hugkvæmni, færni til þess að læra af öðrum og miðla þekkingunni áfram. Óslökkvandi forvitni og ásókn eftir betra lífi hefur drifið mannkynið stöðugt áfram. Sigrarnir vinnast ekki einungis með hinum stóru uppgötvunum eins og hagnýtingu eldsins, hjólinu eða internetinu. Líka í því smáa; oft með þrotlausri vinnu og snjöllum lausnum, í kjölfar langs efasemdatímabils. Þannig varpaði Tryggvi Helgason frambjóðandi Lýðræðisflokksins því fram fyrir 45 árum að réttast væri að bora göng í gegnum Vaðlaheiðina. Hann var hleginn út af borðinu og hætti í pólitík. Fluttist síðar til Ameríku þar sem hann fylgist aldraður með gangaframkvæmdum úr fjarlægð.

Að undanförnu hef ég orðið fyrir talsvert harðri gagnrýni vegna afstöðu minnar til framtíðar Reykjavíkurflugvallar. Það er reyndar undarlegt ef þetta verður stórt kosningamál hér, þar sem búið er að festa flugvöllinn í sessi til 2022. Ég kemst þó ekki hjá því að skýra afstöðu mína vegna sóðalegrar greinar Þorkels Ásgeirs Jóhannssonar, flugstjóra Mýflugs, sem birtist á vefnum BB.is og var tekin upp á visir.is. Þar voru mér gerðar upp skoðanir og sakaður um að skeyta ekki um hagsmuni Akureyringa.

Ég vil öflugt innanlandsflug og tel að Reykjavík sem höfuðborg beri ríkar skyldur í því samhengi. Það verður þó að sýna því skilning ef Reykvíkingar vilja breyta núverandi fyrirkomulagi og skoða rækilega hvort finnst lausn sem sameinar þessi sjónarmið. Í svari til blaðamanns í kjölfar nefndrar greinar, orðaði ég þetta svona:

„Það er að sjálfsögðu gríðarlega mikilvægt að aðgengi allra landsmanna að höfuðborginni sé gott og sjúkraflutningar eins skilvirkir og nokkur er kostur. Það er hins vegar líka bráðnauðsynlegt að Reykjavík nái að styrkjast og þróast til langrar framtíðar. Af hverju látum við þetta mál ekki vera prófstein á það hvort við getum tekist á við flókin viðfangsefni og leyst þau farsællega án gífuryrða og skætings? Viðfangsefnið ætti ekki bara að vera að halda aðstöðu til sjúkraflutninga og aðgengi að höfuðborginni óbreyttu heldur að þjónustan verði enn betri. Á meðan sú lausn er ekki fundin á flugvöllurinn að sjálfsögðu ekki að víkja úr Vatnsmýrinni.“

Og við þetta stend ég. Það er oft þegar maðurinn stendur frammi fyrir flóknum og að því er virðist óleysanlegum viðfangsefnum sem snilli hans kemur best í ljós. Ég vil því gefa þeirri nefnd sem nú er að störfum, m.a. fyrir tilstuðlan ríkisins, umsamið svigrúm til þess að finna lausn sem hámarkar ávinning allra landsmanna.

Mér þykir leitt að þessi sjónarmið skuli vera kölluð svik við Akureyringa en ég mun þó ekki láta kúga mig eða hræða til þess að horfast í augu við hlutina af þröngsýni í stað víðsýni.

Kjósendur verða svo að gera upp við sig hvort þeir treysti betur stjórnmálamönnum, sem neita að hlusta á aðra, sannfærðir um að hin endanlega lausn sé fundin eða þeim sem trúa því að mannsandanum séu fá takmörk sett og hann eigi að virkja, með sátt að leiðarljósi, í þágu heildarinnar.

Höfundur skipar 1. sæti á lista Samfylkingarinnar fyrir bæjarstjórnarkosningarnar á AkureyriLeave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Íþróttir fyrir alla
Kynntu þér stefnumálin okkar
Kosningablað Samfylkingarinnar komið út
Gleðilegt sumar?