Settu bara á þig gloss – og brostu

fridbjorgÁ sunnudaginn síðasta vorum við tvær grútskítugar og illa lyktandi dömur að leggja í hann heim til Akureyrar eftir mikla vinnutörn í sauðburði austur í Finnafirði. Eitthvað vafðist það fyrir minni yndislegu samferðakonu að hún nennti ekki í þrifabað fyrir bílferðina heim. Þar sem ekið skyldi beinustu leið var ljóst að á leið okkar yrðu engir, nema þá farþegar annara bifreiða. Mínu ráði: ,,settu bara á þig gloss – og brostu“ var tekið og heim héldum við glaðar í bragði, illa lyktandi með glossbros út um bílgluggana.

Sveitarfélag með gloss, lítur vissulega vel út við fyrstu sýn en betur má ef við á að una. Akureyri er alger perla við Eyjafjörðinn, og hér höfum við reyndar allt til alls. En það þarf víða að skrúbba svolítið svo íbúar Akureyrar njóti allra lífsins gæða, í bænum okkar allra.

Tökum dæmi; Pollurinn er oft spegilsléttur og hafið lokkar og laðar, en ekki hefur enn verið reist hreinsistöð í Sandgerðisbót fyrir skólp og úrgang, sem rennur því óhindrað út í fjörðinn okkar fagra og er hreint ekki í takt við glæsilega uppbyggingu í kringum siglingaklúbbinn Nökkva, ferðaþjónustuna, rómantískar Húnaferðir, eða aukinn áhuga Akureyringa á sjósundi og sjóstangaveiði.

Að horfa yfir Akureyri hér handan fjarðarins er tilkomumikil sjón á öllum árstímum, en það er lítið aðlaðandi við loftgæðin hér á morgnana þegar gengið er til vinnu eða skóla og svifryksmengunin er komin langt yfir heilsuviðmiðunarmörk sem gerist því miður ítrekað yfir vetrarmánuðina.

Þá er ljóst að það duga engin vettlingatök þegar kemur að því sem þarf að bæta í skólamálum, málefnum barna og unglinga, heilbrigðisþjónustu, öldrunarmálum og félagsþjónustunni, það veit ég þar sem ég hef unnið við og/eða tengst þeim málaflokkum síðastliðin ár. Þar vitum við í Samfylkingunni líka að gloss eitt og sér dugar ekki til að fegra málaflokkana.

Það þarf að móta heildstæða stefnu, það þarf að bæta líðan og vinnuaðstæður starfsfólks. Það þarf að tryggja að réttindi fólks séu virt og borin sé virðing fyrir aðstæðum, líðan og skoðunum vinnandi fólks, barna, aldraðra og þeirra sem einhverra hluta vegna eru ekki í atvinnuþátttöku eða eiga erfitt með að fóta sig í lífinu.

Jöfnuður og jafnrétti, að allir njóti sömu tækifæra eru ástæður mínar þátttöku í pólitík, og það er einnig markmið okkar í Samfylkingunni. Að vinna að bættri velferð með hagsmuni allra Akureyringa að leiðarljósi er okkur frambjóðendum Samfylkingarinnar bæði ljúft og skylt verkefni sem við erum tilbúin í.

Við erum sannarlega hrifin af glossi, en við viljum brúka það til skrauts en ekki bara til að líta vel út á leiðinni.

Fribjörg Jóhanna Sigurjónsdóttir

Höfundur skipar 8. sæti á lista SamfylkingarinnarLeave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Frá úrræðaleysi til aðgerða
Stjórnmál skipta þig máli
Kosningablað Samfylkingarinnar komið út
Stefnumót við frambjóðendur