Akureyri á að vera skapandi atvinnubær á öllum sviðum

[prentvæn útgáfa]

Akureyrarbær í gegnum Akureyrarstofu á að skapa hagkvæm skilyrði fyrir atvinnulífið og stuðla að stofnun og rekstri nýrra fyrirtækja, einkum lítilla og meðalstórra fyrirtækja, með áherslu á fjölbreytni, þekkingu, skapandi greinar og græna hagkerfið sem og nýsköpun á grundvelli hugmyndafræði um sjálfbæra þróun og vistvæna orkunýtingu.

Hlutverki bæjarins verður best sinnt með skipulagsaðgerðum, uppbyggingu traustra og skilvirkra innviða, samhæfingu og einföldun verkferla innan bæjarkerfisins. Auk þess sem mjög rík áhersla verður lögð á að Akureyrarbær veiti góða þjónustu og verði þannig eftirsóknarverður staður fyrir fólk til búsetu og starfa.

Til að stuðla að nýsköpun og markvissri þróun mun Akureyrarstofa hafa forgöngu um samstarf fjölmargra aðila sem gegna lykilhlutverkum í þekkingarsköpun og atvinnulífi. Akureyrarstofa og AFE munu vinna að því að skipuleggja markaðssetningu Akureyrar sem fjárfestingakost fyrir bæði innlenda og erlenda fjárfesta. Leitast verður við að fá vellaunuð störf til bæjarins.

Á kjörtímabilinu veður unnið að:

✓     Því að gera þjónustu og upplýsingagjöf bæjarins til fyrirtækja liprari og skilvirkari.

✓     Ný fyrirtæki verði boðin sérstaklega velkomin með táknrænni gjöf, upplýsingabæklingi og heimsókn bæjarstjóra.

✓     Fjölbreyttari atvinnuþróun í miðbænum og auðvelda minni fyrirtækjum að staðsetja sína þjónustu í miðbænum. Mikilvægt er að miðbærinn höfði áfram til bæði íbúa og ferðamanna.

✓     Aðalskipulag verði endurskoðað þar sem hugað verði að öflugri samtengingu íbúa og atvinnulífs.

✓     Áfram verði hlúð að fjölmennum og rótgrónum fyrirtækjum og vinnustöðum.

✓     Nýsköpunarmiðstöð, HA, VMA og MA komi í auknum mæli að frumkvöðlastarfsemi í samráði við Akureyrarbæ og atvinnulífið.

✓     Kanna forsendur fyrir frumkvöðlasetri skapandi greina í Listagilinu í samvinnu við Listasafnið á Akureyri, Nýsköpunarmiðstöð, listnámsbraut VMA, Myndlistaskólann og HA.

✓     Því að styrkja nafn Akureyrar sem miðstöðvar í rannsóknum á málefnum norðurslóða, loftslagsbreytinga, jarðhita og endurnýtanlegra orkugjafa.

✓     Koma á matarmarkaði – local food – miðsvæðis í bænum.

✓     Torfunefsbryggja verði í góðum tengslum við mannlífið. Huga þarf að tengingu við markaði, verslanir, menningu og nýsköpun

✓     Trillusjónmenn geti lagt upp að Torfunefi og selt fisk beint af bryggunni.

 

Ferðaþjónustan skipar stóran sess á Akureyri og skilar íbúum meiri og betri þjónustu árið um kring auk þess að efla allt mannlíf og gera það skemmtilegra.

Akureyringar eiga að vera góðir gestgjafar mikilvægt er að hlúa að jákvæðum samskiptum íbúa við gesti bæjarins. Samfylkinginn vill starfa með ferðaþjónustufyrirtækjum að markaðssetningu bæjarins og vinna að því að heitið AKUREYRI verði samheiti í ferðaþjónustu fyrir allt norðausturland. Öflug ferðaþjónusta og markaðssetning Akureyrar sem ferðamannabæjar eflir ferðaþjónustu á öllu Norðurlandi.

Lögð verður áhersla á þróun atvinnugreinarinnar með félagslega sjálfbærni og aukna arðsemi að leiðarljósi. Enn meiri áhersla verði lögð á vetrartímann.

Það sem við viljum gera og leggjum áherslu á er að:

✓     Auka hlut ráðstefnu- og hvataferða ásamt þeim hluta ferðaþjónustu sem skilur mest eftir sig.

✓     Akureyrarstofa verði efld til frekari markaðssóknar.

✓     Hátíðir, ýmsir viðburðir og íþróttamót utan háannar verði þróaðar og aðkoma Akureyrarbæjar verði meiri að þeim viðburðum.

✓     Akureyrarflugvöllur verði kynntur sem góður kostur fyrir beint flug erlendis frá og allt norðurland verði markaðsett sem Akureyri.

✓     Útivistarsvæði og perlur Akureyrar verði markaðsettar með áherslu á ferðamennsku fyrir fjölskyldufólk t.d. Glerárdalur, Hlíðarfjall, Sundlaugin, Lystigarðurinn, Kjarnaskógur, Krossanesborgir, Hrísey og Grimsey.

✓     Kjarnaskógur, Hlíðarfjall og Glerárdalur verði skilgreint sem heildstætt útivistarsvæði.

✓     Markaðssetja Akureyri sem paradís útivistar- og ævintýraferðamennsku.

✓     Merktar verði fleiri gönguleiðir á Glerárdal og í nágrenni Akureyrar til að laða göngufólk til bæjarins.