Bjarki Ármann Oddsson

bjarkiBjarki Ármann Oddsson

skipar 3. sæti á lista Samfylkingarinnar
körfuboltaþjálfari
F: 6. janúar 1986

Eftir 10 ára grunnskólagöngu í Hrafnagilsskóla í Eyjafjarðarsveit lá leið mín í Menntaskólann á Akureyri en þaðan útskrifaðist ég árið 2006 af félagsfræðibraut. Árið 2010 útskrifaðist ég með BA próf í Samfélags- og hagþróunarfræði frá Háskólanum á Akureyri. Þaðan lá leið mín í Háskóla Íslands og útskrifaðist ég með meistaragráðu í Opinberri stjórnsýslu (MPA) og lauk einnig diplómagráðu í hagnýtum jafnréttisfræðum við sama skóla vorið 2013. Hef ég einnig lokið ÍSÍ þjálfaragráðu auk fjölda annarra þjálfaranámskeiða.

Mest hef ég starfað við körfuboltaþjálfun en þann feril hóf ég árið 2002 einungis 16 ára gamall og hef starfað við það sleitulaust síðan. Önnur störf má nefna verkefnastjóri hjá Jafnréttisstofu, sérfræðingur hjá sveitarfélaginu Fjarðabyggð, grunnskólakennari og leiðbeinandi á leikskóla. Eins og gengur og gerist hef ég einnig haft ýmis sumarstörf oftast sem sundlaugavörður en einnig „ruslakarla“, starfsmaður steypuskála í álveri, verið sölumaður raftækja og sinnt næturvörslu á hóteli.

Ég hóf ungur að æfa körfuknattleik með Þór samhliða knattspyrnu með Samherjum í Eyjafjarðarsveit. Knattspyrnuskóna lagði ég á hilluna frægu en ég hélt áfram að spila með körfuboltaliði Þórs um árabil og var meðal annars fyrirliði meistaraflokks. Auk Þórs hef ég spilað með Hetti á Egilsstöðum og KR þar sem ég afrekaði það að verða Íslandsmeistari, bæði sem leikmaður og þjálfari yngriflokka. Þess má til gamans geta að ég er einn örfárra einstaklinga sem hafa unnið titil í öllum þremur deildum íslensks körfuknattleiks. Þá á ég unglingalandsleiki að baki. Ég hef þjálfað körfuknattleik síðan ég var 15 ára gamall og hef meðal annars þjálfað meistaraflokk kvenna, verið yfirþjálfari yngriflokka sem og stofnandi körfuboltaskóla Þórs. Síðastliðin tvö ár hef ég þjálfað meistaraflokk karlaliðs Þórs og var þar með einn yngsti meistaraflokks þjálfari á landinu. Frá vorinu 2014 sit ég í stjórn körfuknattleiksdeildar Þórs. Ég var 11. maður á lista Samfylkingarinnar fyrir Alþingiskosningarnar árið 2013 og hef verið meðlimur í ungum jafnaðarmönnum síðan 2009. Ég hef hinsvegar verið gallharður vinstrimaður síðan ég var 9 ára gamall.

Unnusta mín er Konný Bjargey Benediktsdóttir, leikskólaleiðbeinandi, og eigum við saman tvö börn. Ármann Tuma Bjarkason fæddan 2010 og Ásdísi Bjargey Bjarkadóttur fædda árið 2014. Foreldrar mínir eru Oddur Ævar Guðmundsson og Ásdís Björk Ásmundsdóttir. Á ég tvo bræður þá Guðmund Ævar og Ásmund Hrein.

Helstu áhugamál mín í dag eru fjölskyldan, íþróttir, stjórnmál og stjórnsýsla. Á meðal annara áhugamála má nefna saga, landafræði, bókmenntir og tölvuleikir.