Fjármál, stjórnun og rekstur

[prentvæn útgáfa]

Mikilvægt að stöðuleiki verði í rekstri bæjarins og tækifæri til að auka tekjur verði nýtt með aðkomu Akureyrarstofu, Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar og atvinnumálafulltrúa bæjarins.

Skila þarf til baka þeim niðurskurði sem farið hefur verið í síðan 2008 og bitnað hefur á grunnþjónustunni.

Samið verði við ríkið um nýjan samning um rekstur heilsugæslunnar og tryggt að bærinn fái það fjármagn sem þarf til að heilsugæslan geti veitt þá þjónustu sem henni er ætlað samkvæmt lögum.

Vinna í anda kynjaðrar fjárhagsáætlunargerðar og gefa sérstaklega gaum atriðum sem snúa að jöfnuði bæjarbúa.

Efla þarf hverfisnefndir og -ráð og gefa þeim aukið vægi. Þær fái ákveðna upphæð til framkvæmda og fegrunar í hverfinu. Haldnir verði fjórir fundir á ári þar sem samráð fer fram með starfsfólki og kjörnum fulltrúum.

Efla þarf íbúalýðræði.

Setja upp vef/gátt á heimasíðu Akureyrarbæjar þar sem fólk getur komið með fyrirspurnir og hægt að setja upp kosningar á netinu í verkefnum er snúa að ákveðnum verkefnum. Þróa bestu leiðir til að auka aðgengi að þjónustu og upplýsingum bæjarins í gegnum öpp og snjalltæki.

Stærri mál verði kynnt á opnum íbúafundum og bæjarbúum gefinn kostur á að skila inn athugasemdum og þeim verði svarað.

Þjónustuandyri Ráðhússins verði styrkt þannig að þangað sé hægt að leita til þess að fá upplýsingar um þjónustu á vegum bæjarins og kröfur sem gerðar eru t.d. til framkvæmda. Íbúum verði boðið upp á að senda inn rafrænar fyrirspurnir.

Við ætlum að:

✓     Ástunda ábyrga fjármálastjórn og lækka skuldir.

✓     Byggja upp rafræna gagnagátt með upplýsingum er varða þjónustu við íbúa og bæinn þar sem hægt verður að fylgjast með ferli mála

✓     Þróa heimasíðu Akureyrarbæjar og tryggja virka þátttöku bæjarstjóra og kjörinna fulltrúa á rafrænum vettvangi, m.a. með mánaðarlegu vefspjalli bæjarfulltrúa og bæjarstjóra. Hefðbundnir viðtalstímar bæjarfulltrúa verða áfram.

✓     Bæjarstjóri og bæjarfulltrúar hitti hverfisnefndir og -ráð með reglulegum hætti í ráðhúsinu.