Friðbjörg Jóhanna Sigurjónsdóttir

fridbjorgFriðbjörg Jóhanna Sigurjónsdóttir

skipar 8. sæti á lista Samfylkingarinnar
ráðgjafi/verkefnastjóri – Starfsendurhæfing Norðurlands
F: 7. júlí 1973

Er lærður sjúkraliði og með stúdentspróf frá Verkmenntaskólanum á Akureyri. Lauk BA prófi í sálfræði við Háskólann á Akureyri 2010 og kennsluréttindum frá sama skóla 2011. Hef unnið margvísleg störf í gegnum tíðina m.a. fiskvinnsla hjá ÚA, Hótel KEA / Súlnaberg og skóla- og skammtímavistun fatlaðra barna. Ef ég ætti að nefna ,,uppáhalds“ starfið mitt þá er það þegar ég vann í 3 ár við dagþjónustu fyrir aldraða á Öldrunarheimilum Akureyrar áður en ég ákvað að spreyta mig við háskólanám. Þá vann ég tvö sumur sem fangavörður á Akureyri, sem var lærdómsríkt og reyndar mjög áhugavert og gott starf. Í dag vinn ég hjá Starfsendurhæfingu Norðurlands sem ráðgjafi og verkefnastjóri, það er krefjandi en á sama tíma gefandi og skemmtilegt starf með góðu og faglegu samstarfsfólki.

Líklega er ég frekar stjórnsöm, en ég hef á undanförnum árum setið í þó nokkrum stjórnum. Var um árabil í stjórn Handraðans, sem er félag áhugafólks um líf og störf fólks hér áður fyrr og hef verið virk á starfsdögum í Laufási og miðaldadögum á Gásum. Þá var ég í 4 ár í stjórn foreldrafélags Brekkuskóla og fyrir það félag var ég í Samtaka, sem er sameiginlegur vettvangur foreldrafélaga allra grunnskóla á Akureyri. Einnig sat ég í stjórn Aflsins, samtök gegn kynferðis- og heimilisofbeldi á Norðurlandi. Tvö ár sat ég í stjórn Samfylkingarinnar á Akureyri, varaformaður seinna árið. Fyrir hönd Samfylkingarinnar hef ég setið síðan í janúar 2012 í Samfélags- og mannréttindaráði sem áheyrnarfulltrúi.

Ég er austfirðingur í báðar ættir, fædd og uppalin við Finnafjörð, lítin fjörð sem gengur inn af Bakkaflóa. Kom fyrst til Akureyrar þegar ég var 15 ára, keypti mína fyrstu íbúð í Norðurgötunni þegar ég var tvítug. En fór svo suður á bóginn og erlendis um tíma. Hef búið á Akureyri síðustu 12 ár. Ég er yngst af fimm systkynum en foreldrar mínir og elsti bróðir eru fallin frá. Móðir tveggja yndislegra barna og þar fyrir utan eigandi hunds og hests.

Áhugamálin eru meira og minna tengd útiveru. Best finnst mér að komast í sveitina og fá að taka þátt í störfum þar, með börnin mín með mér. Þá er hesturinn minn, hann Rauður Jóhann mér ómældur gleðigjafi og ófáar gönguferðirnar förum við Tryggur Jóhann um nágrenni Akureyrar. Þá á ég veiðistöng og hef náð mér í soðið á góðum dögum, skaut jólasteik fjölskyldunnar sjálf á síðasta ári. Þegar verr viðrar og stund gefst dunda ég mér við lestur og jafnvel smá saumskap og handverk.