Heimurinn er hér – styrkjum margbreytileikann

[prentvæn útgáfa]

Margbreytileikinn er Akureyringum mikils virði, án hans væri mannlífið fátæklegra. Innflytjendur eru auðlind fyrir samfélagið. Samfélagsleg þátttaka Akureyringa af erlendum uppruna skiptir máli fyrir okkur öll, við viljum að öllum líði vel á Akureyri og geti gert bæinn að heimili sínu.

Í skólum, á vinnustöðum og á heimilum á Akureyri eru töluð ýmis tungumál frá öllum heimsálfum. Fjöldi þeirra Akureyringa sem hefur annað móðurmál en íslensku eða hafa fæðst í öðru landi er orðinn talsverður.

Öll börn eiga rétt á því að borin sé virðing fyrir móðurmáli þeirra. Réttur þeirra til að læra eigið móðurmál er ótvíræður. Móðurmálsfærni gerir þau jafnframt sterkari í íslenskunáminu.

Til að bæta íslenskukennslu og velferð íbúa með annað móðurmál en íslensku ætlum við að:

✓     Auka móðurmálskennslu.

✓     Bjóða nýja Akureyringa sérstaklega velkomna í leikskóla, grunnskóla og frístundamiðstöðvar.

✓     Efla stuðning og samstarf við foreldra af erlendum uppruna. Við ætlum að vinna markvisst gegn brottfalli erlendra ungmenna úr framhaldskólunum.

✓     Bjóða öllum sem hingað flytja velkomna með upplýsingapakka þar sem fjallað er um bæinn okkar; skólana, þjónustuna, sorpið, sundlaugarnar, velferðarmálin, réttindi og skyldur, frístundastyrk, húsaleigubætur o.s.frv.

✓     Útbúa móttökuáætlanir þegar börn fara á milli skólastiga og bæjarfélaga.

✓     Leggja áherslu á auðskilið efni á íslensku og vandaðar þýðingar t.d. á heimasíðu bæjarins.