Hermann Jón Tómasson

hermannHermann Jón Tómasson

skipar 22. sæti á lista Samfylkingarinnar
framhaldsskólakennari
F: 13. apríl 1959

Ég lauk BA-prófi í sálfræði frá HÍ 1983 og stundaði framhaldsnám í félagssálfræði í Texas frá 1983-1985. Kennsluréttindanámi lauk ég 1986 og nú nýlega lauk ég meistaraprófi í menntavísindum með áherslu stjórnun skólastofnanna í Háskólanum á Akureyri. Ég hóf störf sem framhaldskólakennari á Akranesi 1985, en hef mestalla starfsævina unnið í VMA, fyrst sem námsráðgjafi og kennari, síðan sem áfangastjóri og nú síðustu árin sem kennari.

Ég hóf afskipti mín af félagsmálum sem stjórnarmaður og síðan formaður félags stjórnenda í framhaldsskólum og sat sem slíkur í stjórn Kennarasambands Íslands á árunum 2003-2005. Ég gekk í Samfylkinguna við stofnun og var valinn til að taka 2. sæti á lista flokksins í bæjarstjórnarkosningum á Akureyri 2002. Það kjörtímabil sat ég í skólanefnd. Mér var síðan falið að leiða lista flokksins í kosningum 2006 og 2010 og sat í bæjarstjórn frá 2006-2012 þegar ég fékk leyfi frá störfum. Á þessum tíma gengdi ég marvíslegum trúnaðarstörfum, sat í bæjarráði allan tímann, þar af sem formaður frá 2006-2009 og gengdi starfi bæjarstjóra 2009-2010. Ég sat auk þess í allmörgum nefndum á vegum bæjarins og fyrir hans hönd, svo sem í launanefnd sveitafélaga og ráðgjafanefnd jöfnunarsjóðs sveitafélaga.

Ég er fæddur og uppalinn á Dalvík en hef búið á Akureyri frá 1988. Konan mín er Bára Björnsdóttir leikskólakennari. Við eigum þrjú börn, Tómas, Hörpu og Bjarka, fædd 1981, 1988 og 1996 og tvö barnabörn.

Ég hef áhuga á menntamálum, íþróttum, að mestu sem áhorfandi, og tónlist. Mér finnst gaman að spila, ég spilaði keppnisbridds alllengi en spila eingöngu mér til skemmtunar í seinni tíð.