Pétur Maack

peturPétur Maack Þorsteinsson

skipar 11. sæti á lista Samfylkingarinnar
sálfræðingur
F: 25. október 1973

Fjölskylda:

Ég er borinn og barnfæddur Eyfirðingur að mestu alinn upp að Hrafnagili ef frá eru talin um það bil fjögur ár á Hvammstanga á aldrin 5 til 9 ára.  Ég er elstur fjögurra systkina og það hefur án efa mótað mig.  Í dag bý ég á Norðurbrekkunni með konu minni, háskolanemanum Önnu Lilju Sigurvinsdóttur og þremur börnum.

Menntun og störf:

Ég er sálfræðingur, með embættispróf frá Háskóla Íslands anno 2005.  Eftir útskrift starfaði ég á FSA þar til vorið 2013 en hef eftir það starfað sjálfstætt á eigin stofu.  Meðfram sálfræðistörfum hef ég sinnt kennslu vð HA.
Meðfram háskólanámi starfaði ég við rannsóknir, bæði á Félagsvísindastofnun HÍ og sjálfstætt með styrkjum frá Nýsköpunarsjóði Námsmanna.
Fyrir háskólanám vann ég eins og flestir jafnaldrar mínir fjölbreytt störf.  Verandi alinn upp í sveit tók ég til hendinni á búinu en ég vann einnig í fiski og ýmis framreiðslu- og þjónustustörf.

Félagsstörf:

Ég hef alla tíð verið virkur þátttakandi í félagsstörfum eins og allir þeir sem vilja hafa áhrif á umhverfi sitt og móta það.  Þegar ég var við nám í VMA sat ég bæði í nemendaráði og skólanefnd, á háskólaárunum sat ég í Stúdentaráði og gegndi stöðu framkvæmdastjóra ráðsins.  Á pólitískum vettvangi hef ég einnig verið virkur í tæp 20 ár, fyrst í Alþýðuflokki og síðar Samfylkingu.

Áhugamál:

Ég verð sennilega að gangast við því að vera dellukarl.  Mér finnst nánast allt sem ég prófa vera skemmtilegt.  Nýjustu dellurnar eru hjólreiðar (bæði götu og fjalla) og „back-country“ skíða- og snjóbrettaferðir.  Annars eru áhugamálin fjölmörg og fjölbreytt, pólitík og öll samfélagsmál, flestar íþróttir, útivera, ferðalög, skógrækt og margt fleira.

Mín pólitík:

Það hefur alltaf verið bjargföst trú mín að stjórnmál séu nauðsynlegt tæki til að jafna tækifæri allra í samfélaginu til að þroskast og blómstra og hafa áhrif á umhverfi sitt.  Í raun finnst mér það vera eina raunverulega hlutverk stjórnmálamanna að tryggja jöfn tækifæri fyrir alla.
Eftir níu ára starf sem sálfræðingur þar sem ég hef haft ótal tækifæri til að kynnast fólki sem þurft hefur að fara lengri leiðina í lífinu er ég enn sannfærðari en áður um að eina rétta leiðin til að byggja réttlátt og mannvænlegt samfélag er með því að grundvalla það á frjálslyndri jafnaðarstefnu.
Jafnaðarstefnan er það skabalón sem við eigum að nota við allar samfélagslegar ákvarðanir vegna þess að hún er besta leiðin til að tryggja öllu fólki jöfn tækifæri.  Þá gildir einu hvort að við ræðum skólamál, þéttingu byggðar, tómstundir barnanna okkar eða aðgang að heilsugæslu.  Jafnaðarhugsjónin og „jafnaðarmannagleraugun“ eiga alltaf við og eru alltaf réttu verkfærin til samfélagsumbóta og til að jafna tækifæri okkar allra.