Velferð barna og ungmenna er forgangsmál

[prentvæn útgáfa]

Velferð barna og ungmenna er best tryggð með því að laga kerfið að barninu, en ekki barnið að kerfinu.

Aukin samvinna fagstétta með umboðsmanni barna/Ungmennamiðstöð

Til að koma til móts við þann hóp nemenda sem á í persónulegum vanda t.d. vegna kvíða, þunglyndis, félagslegra aðstæðna, fátæktar eða neyslu munum við setja á fót umboðsmann fyrir ungmenni/Ungmennamiðstöð sem yrði þverfaglegt teymi á vegum fjölskyldudeildar sem vinni með kennurum og öðrum fagaðilum ásamt fjölskyldum þeirra þegar aðstæður krefja. Þjónusta þessa umboðsmanns yrði til staðar fyrir öll börn á Akureyri fram að 18 ára aldri.

Til að koma á þessari þjónustu þarf að gera úttekt á starfsemi skóladeildar, Fjölsmiðjunnar, heilsugæslunnar, fjölskyldudeildar, barnaverdar og öðrum aðilum sem hafa komið að þjónustu við börn í vanda og fjölskyldur þeira. Þessi leið hefur reynst vel í Danmörku og taka skal sérstakt mið af henni. Stefnt er að því að Ungmennamiðstöðin verði komin af stað í lok árs 2015.

Þrátt fyrir að hér sé um nýja þjónustu að ræða þá teljum við að með henni megi spara tíma og peninga með aukinni samræmingu á þjónstu og fagþekkingu sem þegar er til staðar. Yfirsýn verður meiri og gripið verður fyrr inn í aðstæður sem barnið og fjölskylda þess ræður ekki við. Aukin þjónusta við börn og fjölskyldur mun minnka brotthvarf úr námi, sérstaklega á meðal einstaklinga á aldrinum 14-18 ára. Foreldrum ungmenna á aldrinum 16-18 sem hætta í framhaldsskóla verða tryggðar upplýsingar og ráðgjöf til að efla ungmennin til atvinnuþátttöku og verða virkir í samfélaginu.

Til að efla börn og fjölskyldur þeirra viljum við:

✓     Grípa strax inní ef kviknar grunur á því að barnið þurfi aukinn stuðning.

✓     Vinna sérstaklega með ungu fólki á aldrinum 14 – 18 ára sem eru í hættu á að flosna úr námi.

✓     Auka stuðning í skólum fyrir börn með raskanir.

✓     Efla þekkingu foreldra og starfsfólks skóla á röskunum.

 

Við sættum okkur ekki við fátækt eða félagslega útskúfun á Akureyri – Við eigum öll rétt á farsæld í lífinu og við þurfum hvert á öðru að halda.

Þess vegna er nauðsynlegt að:

✓     Leita leiða til að tryggja að börn líði ekki fyrir fátækt foreldranna m.a. með því að aðstoða við að greiða fyrir tómstundir og skólamáltíðir barna þeirra foreldra sem ekki geta gert það sjálfir.

✓     Bjóða ungmennum tækifæri til vinnu, náms, starfsendurhæfingar eða meðferðar, allt eftir því hver vandinn er.

Skólar, tómstundastarf og íþróttir

Skóla- og frístundastarf er undirstaða velferðarsamfélagsins því þar getum við tryggt börnum jöfn tækifæri til að þroskast og eflast sem sterkir og skapandi einstaklingar. Við fögnum margbreytileika í skóla- og frístundastarfi og viljum að leiðarljós skólanna verði að virkja styrkleika barna og ungmenna, kveikja áhuga þeirra og ýta undir sköpun og frumkvæði.

Samfelldur vinnudagur barna

Það er forgangsmál að bæta færni og þekkingu barna í undirstöðugreinum eins og lestri og stærðfræði. Við viljum að öll börn geti lesið sér til gagns í grunnskólanum, með því að nýta aðferðir sem mæta ólíkum þörfum barna í lestrarnámi.

Með störfum sínum leggja kennarar og starfsmenn skóla og frístundastarfs mikilvægan grunn að framtíð barna og ungmenna. Við viljum eiga samstarf við samtök kennara og foreldra um aðgerðir til að auka virðingu kennarastarfsins í samfélaginu og gera kennslu og önnur störf í uppeldistengdum greinum að eftirsóknarverðum starfsvettvangi.

Á næstu fjórum árum ætlum við að:

✓     Efla færni barna í læsi og stærðfræði í samvinnu við fagfólk leikskóla og grunnskóla með það að markmiði að öll börn geti lesið sér til gagns í grunnskóla.

✓     Auka áhrif barna og ungmenna á innihald og skipulag eigin náms og frístundastarfs.

✓     Auka áherslu á verk, tækni- og listgreinar, þroska umhverfisvitund barna og samþætta skapandi greinar við almennt nám.

✓     Veita meira fé til efniskaupa og auka ráðstöfunarfé skóla til að hægt sé að gera uppbrot í skólastarfið og auka fjölbreytileika þess.

✓     Hefja skipulagða móðurmálskennslu barna af erlendum uppruna, samhliða markvissri íslenskukennslu.

✓     Jafna aðgengi barna að frístundastarfi með áherslu á fjölbreytt skapandi starf.

✓     Draga úr brotthvarfi nemenda með markvissri skimun og forvörnum í grunnskólum.

✓     Auka virkni og áhrif foreldra í skólastarfi.

✓     Tryggja öllum börnum hollar og góðar skólamáltíðir þar sem markmið Lýðheilsustöðvar eru höfð að leiðarljósi og skólar hvattir til að vera Heilsueflandi grunn- og leikskólar.

✓     Fjölga leikskólarýmum fyrir fjölskyldur með ung börn.

✓     Auka opnunartíma leikskóla um hálfa til heila klukkustund.

✓     Hefja undirbúning að listaskóla fyrir börn, þar sem Tónlistarskóli Akureyrar verði fyrirmynd.

✓     Flýta uppbyggingu íþróttahúss í Naustahverfi og klára uppbyggingu grunnskólans

✓     Gera skil milli grunn- og framhaldsskóla sveigjanlegri og aukin samvinna við framhaldsskólana á Akureyri.

✓     Koma á fót sameiginlegri Íþróttaakademíu íþróttafélaganna og framhaldsskólanna með aðkomu Akureyrarbæjar.

✓     Leggja áherslu á og auka hreyfingu barna.

✓     Beita okkur fyrir aukinni samvinnu skólastiga frá leikskóla að háskóla.

✓     Tryggja að starfsfólk sem nú starfar í leik- og grunnskólum eigi kost á vandaðri sí- og endurmenntun.

✓     Leggja sérstaka áhersla á að auka starfsánægju og efla fagmennsku kennara og skólastjórnenda með markvissri starfsþróun.

✓     Hafa laun leik- og grunnskólakennara samkeppnishæf við viðmiðunarstéttir.

 

 

Nýtum sérstöðu öflugra leikskóla

Nær öll börn á Íslandi ganga í leikskóla. Þar gefst því gullið færi til að leggja grunn að almennu læsi á forsendum leiksins. Með góðri samvinnu fagfólks leik- og grunnskóla getum við náð frábærum árangri. Með markvissum aðferðum má styrkja þann fjórðung barna sem stendur höllum fæti varðandi málþroska strax í leikskólanum. Huga þarf að hljóðvist barna í skólum, gera mælingar og auka hljóðvist þar sem of mikill erill og hávaði getur hamlað námi barna. Því er mikilvægt að tryggja samvinnu og samstarf á milli allra skólastiga bæjarins.

Við viljum setja börnum í leikskólum raunhæf færniviðmið en treysta fagfólki á leikskólum til að útfæra leiðir að þeim.

Sköpun og leikur í víðum skilningi er kjarni leikskólastarfsins. Leikskólinn hefur margar leiðir til að vinna með börn á skapandi hátt og virkja þannig hæfileika þeirra, efla sjálfstraust og félagsfærni.

Góður leikskóli byggir á traustri fagmennsku. Á Akureyri búum við við þau forréttindi að við leikskólana starfar hátt hlutfall leikskólakennara. Á síðustu árum hefur aðsókn í háskólanám í leik- og grunnskólafræðum minnkað og er það mikið áhyggjuefni sem bregðast þarf við til að tryggja fagmennsku í leik- og grunnskólum bæjarins.

Grunnskólar í fremstu röð

Við viljum að öll börn geti lesið sér til gagns í grunnskólanum og munum leita leiða til að mæta ólíkum þörfum barna í lestrarnámi. Til að ná því markmiði viljum við efna til víðtæks samstarfs um eflingu læsis, með áherslu á lesskilning. Fagfólk í leikskólum og grunnskólum, foreldrar og sérfræðingar háskólasamfélagsins eru lykilaðilar til að ná settu marki. Mikilvægt er að upplýsingar úr þroska- og skimunarprófum berist greiðlega til og á milli leikskóla og grunnskóla og séu nýttar í þágu viðkomandi barna. Við eigum að nýta rannsóknir og reynslu innlendra og erlendra aðila til að bæta árangur og þjónustu og gæta þess að taka mark á sjónarmiðum fagfólksins í skólunum.

Öll börn eiga að njóta sín í skólunum, þeim á að líða vel og ganga vel í námi. Börn og ungmenni eiga að njóta fjölbreytni í skólastarfi. Gera á verk-, tækni- og listnámi jafnhátt undir höfði og bóknámi. Lögð verði áhersla á að þroska umhverfisvitund barna og ungmenna með útinámi og fjölbreyttri náttúruskoðun. Tryggja þarf fjölbreytni námsaðferða til að undirstrika þennan margbreytileika.

Mikilvægt er að greina og skilja starf kennara í leikskólum og grunnskólum eins og þau raunverulega eru í breyttu samfélagi og skapa þær aðstæður að kennarar geti í auknum mæli einbeitt sér að skipulagi náms og kennslu í þágu nemenda. Mikilvægt er að kennarar fái tækifæri til að vinna með sérhæfðum fagaðilum til að mæta ólíkum þörfum nemendahópsins.

Auka á vægi skapandi greina í almennu skóla- og frístundastarfi og styðja við bakið á þróunarstarfi um samþættingu námsgreina. Efla þarf nemendalýðræði þar sem börn og ungmenni eiga að hafa meiri áhrif á það hvað þau læra í skólum og hvernig.

Með störfum sínum leggja kennarar og starfsfólk skólanna mikilvægan grunn að framtíð barna og ungmenna. Bera þarf virðingu fyrir fagmennsku og reynslu kennara í þeim brýnu verkefnum sem eru framundan í að bæta skólastarf. Við viljum eiga samstarf við samtök kennara, foreldra og atvinnulífsins um aðgerðir til að auka virðingu kennarastarfsins í samfélaginu og gera kennslu að eftirsóknarverðum starfsvettvangi. Auka þarf áherslu á bætt starfs- og launakjör og þau jöfnuð við helstu viðmiðunarstéttir.

Aukin virkni og áhrif foreldra í skólastarfi

Öflugt foreldrastarf stuðlar að velferð barna í skólum. Stuðla þarf að því að allir foreldrar hafi tækifæri til að koma að stefnumótun og taka þátt í starfi skólans. Mikilvægt er að skilgreina vel hlutverk og ábyrgð foreldra í skólastarfi t.d. með sérstakri foreldrahandbók sem verður aðgengileg á heimasíðu Akureyrarbæjar. Foreldrar verði sérstaklega hvattir til að taka virkan þátt í heimalestri með börnum alla grunnskólagönguna sem leið til eflingar læsis.

Aðgangur foreldra að kjörnum fulltrúum verði aukinn m.a. með reglulegum opnum fundum um skólamál og í gegnum vefspjall.

Eflum móðurmálskennslu barna af erlendum uppruna

Í skóla margbreytileikans þarf að hlúa vel að öllum börnum, þar með talið þeim ört vaxandi hópi sem er af erlendu bergi brotinn. Virða þarf rétt þessara barna til móðurmálskennslu við hæfi samhliða markvissri íslenskukennslu. Góð móðurmálskunnátta nemenda er lykill að frekara námi, eflingu sjálfsvitundar og umburðarlyndis. Stefna um móðurmálskennslu verði mótuð og stuðlað að eflingu foreldrasamstarfs í þágu barna af erlendum uppruna.

Drögum úr brotthvarfi með aðgerðum í grunnskóla

Nauðsynlegt er að vinna gegn brotthvarfi nemenda úr skólakerfinu. Beita þarf forvörnum strax í grunnskóla og styðja við bakið á þeim ungmennum sem ekki njóta sín í skóla og sýna minnkandi skólasókn. Auka þarf námsframboð og gera þeim kleift að finna og eflast af styrkleikum sínum. Tryggja þarf þeim markvissa námsráðgjöf, námsaðstoð og meðferðarúrræði við hæfi í góðri samvinnu við ungmennin sjálf, fjölskyldur þeirra og fagaðila. Ungmennamiðstöð mun verða lykilaðili í að ná til þessara ungmenna og tryggja þeim upplýsingar og þjónustu.

Öflugt frístundastarf í félagsmiðstöðvum 

Í frístundastarfi gefast spennandi tækifæri til að vinna með félagsfærni og sjálfsmynd barna, virkja skapandi hugsun þeirra, seiglu og sjálfstæði.

Sóknarfærin eru ótalmörg. Við leggjum áherslu á jafnt aðgengi allra barna að frístundastarfi, þar með talið barna af erlendum uppruna og að frístundastarfið sé m.a. nýtt til að kynna börnum fjölbreytilega kosti á sviði verk-, tækni- og listnáms auk íþrótta.

Við munum leita leiða til að draga úr kostnaði foreldra við íþrótta- og frístundastarf barna þeirra. Við viljum hækka frístundastyrk með hverju barni í a.m.k. 25 þúsund krónur á kjörtímabilinu og að greitt sé með hverju barni til 18 ára aldurs. Taka þarf upp samræmdan systkinaafslátt á milli skóla-, íþrótta- og frístundastarfs.

Þá munum við fjölga hópferðum skólabarna á menningarviðburði og söfn til að tryggja jafnt aðgengi barna að menningu. Fjölgað verði tækifærum barna og ungmenna til að njóta og fræðast um íslenska náttúru með skipulögðum vettvangsferðum.

Íþróttir og hreyfing barna

Við viljum stuðla að því að öll börn hafi jöfn tækifæri til íþróttaiðkunar. Við ætlum að vinna með íþróttafélögunum:

✓     Gera þeim kleift að taka á móti auknum fjölda barna á mismunandi forsendum, hvort sem um er að ræða keppnismiðaðar íþróttir eða ekki.

✓     Draga úr brottfalli iðkenda og stuðla að því að allir hafi verkefni við hæfi.

✓     Tengja betur saman starfsemi grunnskólanna og íþróttafélaganna.

✓     Stuðla að auknu samstarfi milli íþróttafélaga bæjarins til hagsbóta fyrir iðkendur.

Við viljum bæta aðstöðu á leik- og íþróttasvæðum bæjarins með áherslu á þarfir fjölskyldufólks og barna. Við viljum:

✓    Fjölga körfuboltavöllum í bænum og setja upp a.m.k. þrjá velli á kjörtímabilinu.

✓    Koma upp sparkvelli í Hrísey.

✓    Aðlaga leiðakerfi strætisvagna Akureyrar að íþróttamannvirkjum bæjarins.

✓    Leita samstarfs við íþróttafélögin um íþróttaiðkun almennings.